Í síðustu viku var nýtt vatnsból tekið í notkun fyrir Djúpavog. Nýja vatnsbólið sækir vatn sitt í eyrar Búlandsár, um 400 m fyrir ofan þjóðveg. Eldra vatnsbólið er hinsvegar uppi á Búlandsdal og fékk það vatn sitt beint úr Búlandsá og lindarbrunnum á dalnum.
Í fyrravor boraði Trölli, jarðbor Ræktunarsambandsins, tvær 14 tommu borholur í eyrar Búlandsár. Unnið var að undirbúningi á nýju vatnsbóli um sumarið sem meðal annars fól í sér virkjun á borholunum og gröft á lögn frá borholunum að stofnlögninni frá gamla vatnsbólinu á Búlansdal en þar tengist nýja vatnsbólið inn á lögnina sem ber vatnið til Djúpavogs. Einnig voru borholurnar varðar með grjótgörðum og lokahúsi komið fyrir.
Eftir langa bið eftir dælum kom loksins að því í síðustu viku og dælurnar hafa verið gangsettar og nú rennur vatn frá nýja vatnsbólinum um lagnir á Djúpavogi. Gamla vatnsbólið er því ekki lengur í notkun, en mun þjóna sem varavatnsból á meðan reynsla fæst á það nýja.
Vonast er til þess að með tilkomu nýs vatnsbóls muni vatnsgæði aukast til muna frá því sem fyrir var. Einnig verður auðveldara að sinna viðhaldi og eftirliti sökum staðsetningar.
Með nýju aðalskipulagi Múlaþings 2025 tekur einnig nýtt vatnsverndarsvæði gildi, en mun fjarsvæðið ná yfir allt vatnasvið Búlandsár, niður að neðri borholunni.