Saga jarðhitaleitar við Djúpavog

Árið 1994 var fyrsta hitastigulsholan í nágrenni Djúpavogs boruð eftir að Ómar Bjarki Smárason jarðfræðingur fékk leyfi þáverandi sveitastjóra til að leita að jarðhita á svæðinu. Holan þótti gefa vísbendingu um að finna mætti jarðhitasvæði í nágrenni hennar en hitastigullinn var 84°C/km.

Árið 2000 voru síðan boraðar 10 hitastigulsholur til viðbótar í tilraun til að staðsetja væntanlegt jarðhitasvæði og var þá hola DPV-3 með 122°C/km hitastigul.

Veturinn 2005-2006 voru níu holur boraðar til viðbótar og smám saman þokaðist leitin í rétta átt. Þá reyndist hola DPV-19 hafa hitastigul uppá 262°C/km. Þá var reiknað með að það yrði tiltölulega einfalt að staðsetja vinnsluholu fyrir svæðið með nokkrum grunnum holum og dýpkun á öðrum. Staðsetning jarðhitasvæðisins var þá nokkurn veginn fundin á yfirborði en svæðið er staðsett í miðju gangasveimsins frá Álftafjarðareldstöðinni. Nokkur fjöldi bergganga er á svæðinu og er jarðlagahalli 14° og var reiknað með að jarðhitasprungan hefði sama halla.

Árin 2006 - 2007 voru fleiri holur boraðar og aðrar dýpkaðar en ekki náðist tilsettur árangur og ekki tókst að staðsetja jarðhitasprunguna. Eftir þennan áfanga vaknaði spurningin hvort jarðhitasprungan væri nær því að vera lóðrétt en ekki með 14° halla til austurs eins og talið hafði verið.

Seinna árið 2007 var haldið áfram og ákveðið að bora tvær skáholur til að freista þess að skera sprunguna á um 200m dýpi. Það voru holur DPV-28 og DPV-29. Við borun holu DPV-28 var stór vatnsæð skorin á 187m dýpi sem gaf um 5 l/s af 41°C vatni. Þegar dýpra var borað var komið í gegnum þessa æð og hitinn lækkaði. Þessi hola hefur æ síðan verið í sjálfrennsli með um 4 l/s af 44°C vatni sem hafði þá hitnað lítillega síðan holan var boruð og er nú í kringum 47°C. Vatnið hefur verið leitt í baðkör neðan borsvæðis sem hafa verið vinsæl meðal ferðamanna síðustu ár. Hola DPV-29 bar ekki mikinn árangur. Hola DPV-30 var boruð árið 2008 en bar ekki teljandi árangur.

Frekari rannsóknir fóru fram á næstu árum svo sem dæluprófanir (2010) og dýpkanir (2016-2017) á holum fóru fram á næstu árum sem gaf betri hugmyndir um virkni svæðisins. Kísilhiti reyndist 75°C úr nokkrum holum á svæðinu sem gaf tilefni til bjartsýni að hægt væri að ná í 70-80°C vatn úr svæðinu.

Eftir tilraunir og rannsóknir frá 2016-2017 komu fram hugmyndir um staðsetningar tilraunavinnsluhola sem áttu að skera jarðhitaæðina á 500 til 800m dýpi.

Dæluprófanir fóru fram 2022 og 2023 og gáfu þær betri mynd af legu kerfisins og studdu í stórum dráttum þá hugmyndir sem höfðu ríkt um legu kerfisins. Markið var því sett á að bora eina tilraunavinnsluholu (DPV-31) og var staðsetning, halli og stefna hennar ákveðin og er lítillega breytt frá fyrri legu. Með henni er vonast til að hitta jarðhitaæðina á um eða neðan við 500m dýpi.

Jarðborinn Trölli frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða kom til verksins í byrjun febrúar og stendur borun yfir. Þegar þessi pistill er skrifaður (27.2.2024) er Trölli kominn á 401 metra dýpi.

Vinna á svæðinu fór í fyrstu fram fyrir hönd Djúpavogshrepps og var Ómar Bjarki Smárason og jarðfræðistofan hans, Stapi, fengin í að sinna rannsóknum og hefur hann verið viðriðinn verkefnið frá upphafi og er enn. Á sínum tíma sannfærði hann þáverandi sveitarstjóra að bora fyrstu hitastigulsholuna á svæðinu og með því upphófst þessi leit. Að þessu hafa einnig komið verkfræðistofan Efla auk ýmissa borsveita. Verkefnið var um tíma á forræði Rarik sem naut m.a. ráðgjafar WVS verkfræðistofu. Hitaveita Egilsstaða og Fella (nú HEF veitur) komu lítillega að málum 2016-2018, án teljandi framvindu. Hitaveita Djúpavogshrepps var stofnuð til að halda utan um rannsóknir og nýtingu á jarðhitasvæðinu en sameinaðist HEF veitum árið 2020 í kjölfar sameiningar sveitarfélaga í Múlaþing. HEF veitur fara nú fyrir verkefninu.

Rannsóknir á jarðhita í nágrenni Djúpavogs hafa því staðið yfir í hart nær 30 ár og er mikil þekkingvitneskja til staðar. Kísilhiti í borholum á svæðinu hefur mælst 75°C. Svæðið er vatnsgjæftvatnsgæft og sambærilegt því á Eskifirði og því ástæða til bjartsýni. Takist yfirstandandi borun er lagt upp með að leggja tvöfalt kerfi með niðurdælingu og byrja á að tengja stórnotendur.