Mengun í drykkjarvatni á Borgarfirði

Borgarfjörður Eystra
Borgarfjörður Eystra

Til íbúa Borgarfjarðar

Við reglubundið eftirlit með neysluvatni á Borgarfirði, kom í ljós að vatnið er örverumengað. Um er að ræða E. coli/kólígerlar, sem gefur til kynna að vatnið er mengað af saur frá mönnum eða blóðheitum dýrum.

Nauðsynlegt er að sjóða vatn til neyslu. Óhætt er að nota vatnið til annarra þarfa s.s. til baða þar sem fjöldi gerlanna var innan þeirra marka, sem miðað er við að megi vera í baðvatni í náttúrunni (baðstaðir í 1. flokki skv. reglugerð nr. 460/2015 um baðvatn á baðstöðum í náttúrunni).

Frekari sýnitaka stendur yfir og munum við senda út upplýsingar þegar niðurstöður úr þeim liggja fyrir.


Upplýsingar frá heilbrigðiseftirliti, Matvælastofnun og sóttvarnalækni – ágúst 2018

Þegar sjóða þarf neysluvatn

Þegar neysluvatnið er mengað af sjúkdómsvaldandi gerlum, veirum eða sníkjudýrum er nauðsynlegt að hreinsa allt vatn sem á að drekka eða nota við matargerð. Algengast er að sjóða neysluvatnið og drepa með því eða gera óvirka þá meinvalda, sem er að finna í vatninu. Ábending um að sjóða neysluvatn kemur oftast frá heilbrigðiseftirliti vegna gruns um eða að fenginni staðfestingu á að vatnið sé mengað.

Þegar gefin er út viðvörun og notendum bent á að sjóða neysluvatn er rétt að hafa eftirfarandi í huga.

Að sjóða neysluvatn

Vatnið þarf að bullsjóða. Hraðsuðuketill bullsýður vanalega vatnið þegar hann slekkur á sér og það er nægilegt.  Ef notaður er örbylgjuofn verður að ganga úr skugga um að vatnið bullsjóði.

Soðið vatn

Allt vatn sem drukkið er þarf að vera soðið. Einnig er nauðsynlegt að sjóða vatn sem nota á; 

  • til matargerðar, þegar matvælin verða ekki soðin eða steikt (hitameðhöndluð yfir 100°C), eftir þvott eða aðra meðhöndlun í vatni s.s. við skolun á grænmeti og ávöxtum 
  • til íblöndunar safa, annarra drykkja eða matvæla, sem neytt er án eldunar 
  • til kaffilögunar, ef kaffivélin sýður ekki vatnið við uppáhellinguna þarf að setja soðið vatn í hana 
  • til ísmolagerðar 
  • til tannburstunar 
  • til böðunar ungbarna 
  • til loftræstingar s.s. í rakatæki

Þessi listi er ekki tæmandi og verður hver og einn að meta það hvort hætta sé á ferðum sé vatnið notað ósoðið.

Ósoðið vatn

Nota má ósoðið vatn; 

  • til matargerðar s.s. til skolunar á matvælum, sem munu síðar vera elduð 
  • til uppþvotta í vél eða höndum og er þá leirtau þurrkað eða látið þorna fyrir notkun 
  • til handþvotta 
  • til baða, í baðkari eða sturtu en rétt að brýna fyrir börnum að drekka ekki vatnið 
  • til tauþvotta 
  • til þrifa.

Leiðbeiningar til útprentunar