Árið 2007 náðist mikill árangur í jarðhitaleit við Djúpavog þegar jarðhitaæð var skorin á 180 m dýpi og æ síðan hefur borholan verið í sjálfrennsli. Vatnið var um 43°C í fyrstu en hefur síðan þá hitnað upp í 46°C. Eftir þennan árangur skorti frármuni til að halda leitinni áfram um tíma þó einhver vinna hafi farið fram. Kraftur kom í leitina eftir að HEF veitur tóku við verkefninu við sameiningum Múlaþings og Orkusjóður styrkti verkefnið ríkulega árið 2023. Síðan þá hefur reynst erfitt að elta uppstreymi jarðhitavatnsins niður á við og svæðið afhjúpað sig sem krefjandi áskorun. Þó færumst við nær markinu og þekking á svæðnu fer sífellt vaxandi.
Nú fyrir jól var lokið við borun á 408 m borholu sem virðist við fyrstu skoðun staðfesta að uppstreymið á svæðinu er fyrir norðan veginn en leitarsvæðið hefur færst eina 100 m norður fyrir þjóðveg á síðustu misserum. Þessi hola er jafnframt besta holan á þessu dýpi sem er á svæðinu. Hún sker þó ekki jarðhitaæðina en er 45,6°C á 408 m dýpi.
Áfram er stefnt á að jarðhitavæða Djúpavog með þessari ófundnu jarðhitaauðlind, en kísilhiti, sem er vísir á þann hita sem talið er að finna megi á svæðinu, er um 75°C. HEF veitur hafa þó ákveðið að láta forhanna hitaveitu á Djúpavogi og skoða það hvort nota megi þetta 46°C vatn sem til staðar er til að kynda sundlaugina. Þó má vart sjá fyrir sér að farið verði í framkvæmdina að leggja hitaveitulögn nema að stærð lagnar henti fyrir bæði núverandi sviðsmynd og líklega framtíðarsýn. Einnig er í vaxandi mæli mælt með að byggja tvöföld kerfi með niðurdælingu á lághitasvæðum og er stefnan að gera það á Djúpavogi. Hluti verkefnisins verður einnig að meta hvort henti að nýta varma úr svæðinu í varmadælu.
Vinna á svæðinu heldur áfram og spennandi tímar framundan.