Jarðborinn Trölli frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða (Ræktó) hefur á síðustu vikum og mánuðum borað eftir heitu vatni við Djúpavog. Nú er þessari borun lokið og umfjöllun lokið en hér var fjallað um gang mála.
6.4.2024
Þá er þessari lotu í jarðhitaleit við Djúpavog lokið. Óhætt er að segja að niðurstaðan sé vonbrigði en blástur á holunni leiddi ekkert nýtt í ljós. Nú er borinn farinn til annara verka en við munum á næstu vikum taka stöðuna og ákveða næstu skref í þessu verkefni.
5.4.2024
Borinn náði 800 metrunum í gær og dagurinn byrjaði því á hitamælingu. Satt best að segja kom hún ekki vel út og ekki er annað að sjá en að mistekist hafi að skera jarðhitaæðina sem leitað var af. Borinn var dreginn upp og á morgun verður lofti blásið í holuna. Það framkallar undirþrýsting í holunni og við það hreinsast svarf og drulla úr æðum sem kunnu að hafa stíflast. Þá geta æðar komið fram sem fóru framhjá okkur en það verður að koma í ljós.
2.4.2024
Borun miðaði hægt en örugglega áfram yfir páskana og var meðalborhraði tæpir 20 metrar á dag. Nú stendur borinn í 771 metra. Ekki hefur dregið til tíðinda á þessum kafla og styttist í að 800 metrunum verið náð. Áfram skiptist á mjög hart berg og mýkri berglög á milli.
28.3.2024
Hitamæling kom ekki sérlega vel út. Hitinn mælist um 52°C á 680 metra dýpi. Ekki hefur enn tekist að skera þá æð sem við ætluðum okkur, en við stefnum neðar enn um sinn.
27.3.2024
Lítið gengið síðustu daga en það horfir til betri vegar og í dag er borinn í 672 metrum þegar þetta er skrifað. Líklega verður tekin hitamæling í fyrramálið. Við höldum áfram að bora á meðan hitinn hækkar og horfum núna gróflega á 800 metra markið. Páskafrí framundan en bormenn halda sínu striki og verða að yfir páskana. Það má þó búast við hléi á uppfærslum hér fram yfir páska.
22-23.3.2024
Helgin gekk brösulega í borun og borinn er kominn í 636 metra. Hallamæling sýnir að holan er komin í um 12° við 600 metra sem er fínt á þessu stigi málsins, við stefnum á að skera í gegnum þennan sprungusveim og hallinn hjálpar okkur við það.
21.3.2024
Fínn bordagur og boraðir voru 24 metrar, niður í 624 m. Hitamæling um morguninn kom betur út en hefur verið og lítil en merkjanleg hitasveifla í kringum 600 m.
21.3.2024
Kaflaskiptur dagur og berglög mis hörð. Þó var bergið heilt yfir mýkra en hefur verið lengi og 600 metra múrinn var rofinn undir kvöldið og stendur borinn þar. Heilir 39 metrar boraðir! Hita og hallamælingar verða líklega gerðar á morgun. Það nálgast að borinn sé kominn í gegnum það svæði sem við áttum vona á jarðhitaæðinni Sprungukerfið í heild sinni nær þó lengra í norð-vestur (borstefna er norð-vestur til að skera þetta sprungukerfi) miðað við staðsetningu borsins núna svo það væri óráð að hætta borun áður en það svæði hefur verið kannað eitthvað frekar.
20.3.2024
Tafir á vaktaskiptum vegna tafa á flugi.
19.3.2024
Aftur tókst að bora 21 metra þó um styttri vaktaskiptadag sé að ræða og borinn stendur nú í 561 metra. Bergið er að jafnaði mjög hart, en á milli koma mýkri lög og þá vinnst borun mun hraðar. Í þetta sinn var nokkuð þykkt mjúkt lag frá 544 til 558 metra dýpi.
18.3.2024
Borað í gegnum hart berg með mýkri köflum á milli. Útkoman er 21 metri úr 519 í 540 metra.
17.3.2024
Hitamæling var gerð á holunni og viðhaldi sinnt áður en borun hélt áfram. Hitamæling kom ekki eins vel út og vonir stóðu til, og ætlar þessi heita vatnsæð að láta leita af sér. Hitinn í 516m mælist nú 43°C. Borun hélt svo áfram og borað var úr 516 í 519 metra í hörðu bergi.
15-16.3.2024
Borað í mjög hörðu frameftir degi en mýktist aðeins eftir hádegi. Seinnpartinn þótti borun undarleg og þótti ástæða til að skoða strenginn og í ljós kom að hann hafði slitnað. Strax var hafist handa við að ná honum upp. Á laugardeginum var fiskara slakað niður og borstrengur fiskaður upp, holan hreinsuð og undirbúin í kjölfarið.
14.3.2024
Áfram mjög hart og jafnvel enn harðara í dag, með harðasta móti mætti segja. 7 metrar boraðir og komið niður á 512 metra dýpi.
13.3.2024
Tíðindalítill dagur í borun en borinn var í mjög hörðu allan daginn og einungis 7 metrar boraðir. 500 metra múrinn hefur því verið rofinn og borinn í 505 metrum í lok dags.
12.3.2024
Dagurinn gekk vel og boraðir voru 18 metrar á þessum vaktaskiptadegi, úr 480 m í 498 m. Eitt sem hefur ekki komið fram er að hjólakrónan sem borað er með er 6 1/4" en ekki 6 1/2" eins og lofthamarinn var.
11.3.2024
Borinn fór að snúast á ný og boraðir voru 12 metrar, úr 468 í 480 metra. Halli holunnar í 465 m er 10°.
10.3.2024
Síðustu daga hefur verið unnið að hreinsun holunnar og viðhaldi. Það styttist í að borinn byrji að snúast á ný.
6.3.2024
Bormenn Ræktó unnu gott verk og fiskun búnaðarins upp á yfirborð tókst vel. Við taka frekari aðgerðir til að hreinsa holuna og viðhald á búnaði. Reiknað er með að borun haldi áfram í næstu viku.
5.3.2024
Aðgerðir undirbúnar og vaktaskipti. Svokallaður fiskari verður notaður til þess að veiða upp úr holunni.
4.3.2024
Í gærkvöldi og dag kom búnaður á svæðið sem þarf til að reyna að bjarga holunni. Undir kvöldið var holan mynduð með borholumyndavél og brotið var myndað. Aðgerðir við að ná bornum upp hefjast á morgun.
3.3.2024
Hitamæling var gerð um morguninn til sjá hvort fyrirhuguð sprunga gæfi fyrirheit um hita. Þegar mælirinn komst ekki dýpra en 423 metra fóru viðvörunarbjöllur að hringja og strengurinn var dreginn upp úr holunni. Þá kom í ljós að hann hafði slitnað og tæpir 50 metrar af borstöngum, þyngingum og borkrónan er eftir í holunni. Ljóst er að staðan er ekki góð og við horfum fram á nokkura daga bið hið minnsta á meðan reynt verður að fiska strenginn upp úr holunni. Takist það verður hægt að halda áfram með holuna óbreytt. Takist ekki að ná strengnum upp með fiskara og öðrum græjum sem eiga við, þá fer holan ekki lengra í þessari mynd. Mögulega verður hægt að steypa niður í holuna og bora nýja leið út úr henni til að nýta efri hluta hennar en tíminn einn leiðir þetta í ljós. Ekki er ljóst hvað olli þessu sliti.
Hér má sjá brotsárið á borstönginni eða strengnum.
2.3.2024
Berg hart og lítil framvinda í dag. hraðinn var um 1 metri á klukkustund. Eftir 6 metra borun fór bor að festast líkt og í sprungu væri komið og erfitt reyndist að halda áfram. Getgátur kviknuðu um að berggang væri að valda þessu en svarfgreining bendir ekki frekar til þess. Óljóst í hvaða aðstæðum borinn er en það skýrist vonandi á morgun. Borað úr 462 í 470 metra.
1.3.2024
Hitamæling og hallamæling voru framkvæmdar um morguninn. Hitinn mælist 40°C á 433 metra dýpi. Eftir að hálfköld vatnsæð var skorin á 320 metrum hefur hitinn hækkað hægar en við vonuðumst og enn um sinn lítil áhrif frá jarðhitaæðinni sem leitað er að. Framhaldið verður að koma í ljós en það eru enn um 100 metrar í að hún verði skorin samkvæmt okkar útreikningum. Hallamæling sýnir 10° halla í 430 metrum og heldur hefur dregið úr hallanum. Borun hélt svo áfram og borað var úr 444 metrum í 462 metra. Berglög eru mis hörð gangur borunar eftir því.
29.2.2024
Hlaupársdagurinn gekk vel og borinn komst í eitthvað mýkra berg en dagana áður. Boraðir voru alls 25 metrar úr 419 í 444 metra. Undir lok dags var holan undirbúin fyrir halla og hitamælingu í fyrramálið.
28.2.2024
Ný vakt tekur við og bergið enn harðara en áður. Aðeins tókst að bora 7 metra og heildardýpi 419 metrar.
27.2.2024
Borað úr 401 í 412 metra eða samtals 11 metra með 6 1/4" hjólakrónu.
26.2.2024
Hjólakrónuborað allan daginn en bergið er áfram hart. Það tekur um hálftíma að bora meterinn í stanslausri keyrslu. Borað var úr 384 metrum í 401. Styttri dagur á morgun vegna vaktaskipta.
25.2.2024
Dagurinn byrjaði á því að klára að draga upp úr holunni til að hitamæla og skipta yfir í hjólakrónuborun. Hitamælingin var gerð á 372 og mældist hitinn 37°C. Að því loknu var hjólakróna sett niður og borun hélt áfram. Bergið er hart og því miðar þessu ekki hratt áfram. 12 metar voru boraðir niður í 384 metra dýpi.
24.2.2024
Rósemdardagur við borun. Áfram borað með lofthamri úr 342 metrum niður í 372 metra. Hallamæling sýnir að halli heldur áfram að aukast lítillega og er 10,7° í 360 metrum. Hitamæling verður gerð í fyrramálið og mögulega skipt yfir í hjólakrónuborun.
23.2.2024
Borun hófst á ný og tók það megnið af deginum að bora í gegnum steypuklumpa á leiðinni og svo steyputappann niðri við botn. Enn er eitthvað vatn í holunni en það hefur minnkað nokkuð. Borun hélt svo áfram niður frá fyrri botni og tókst að komast niður á 342 metra dýpi. Áfram verður borað með lofthamri eins og hægt er, en á næstu dögum verður líklega skipt yfir í hjólakrónuborun. Auka dæla var sett niður í holu DPV-30 til að tryggja bornum nægt vatn sem verður sérstaklega mikilvægt þegar kemur að hjólakrónuborun.
22.2.2024
Í dag var steypt í holuna til að loka hálfkaldri vatnsæð á 320 metra dýpi. Steypubíll með 4 rúmmetra var fenginn í verkið. Hægt verður að hefja borun á ný á morgun. Vandamál kom upp með dælu í holu DPV-28 sem skaffar bormönnum vatn og leitað er lausna á því.
21.2.2024
Næsta vakt bormanna heldur áfram að glíma við þetta mikla vatn í æðinni á 320 metrum og bora 6 metra niður í 330 metra. Mat á vatnsmagni er 25-30 l/sek úr holunni, mest úr þessari umtöluðu æð. Hallamæling gefur 10,5° halla í 330 metrum. Ljóst er að steypa þarf í æðina.
20.2.2024
Vaktaskipti hjá bormönnum.
Fróðleiksmoli:
Það er ekki úr vegi að segja frá upphafsmanni þessa verkefnis og ráðgjafa okkar í verkefninu. Það er hann Ómar Bjarki Smárason
Ómar Bjarki varð til þess að fyrsta hitastigulsholan á svæðinu var boruð árið 1994. Honum þótti hitastigull hennar sem var 84°C/km gefa til kynna að finna mætti meiri hita á svæðinu. Upphófst frekari jarðhitaleit með borun fleiri hitastigulshola á svæðinu í kring og smám saman fannst hærri hitastigull og leitarsvæðið minnkaði.
Á árunum 2006-2008 var töluvert borað og þá náðist fyrsti áþreyfanlegi árangurinn með borun holu DPV-28 en hún skar stóra vatnsæð á 187 metra dýpi sem gaf yfir 40°C vatn. Æ síðan hefur DPV-28 verið í sjálfrennsli og gefið um 4 l/sek af 44°C vatni sem hefur hitnað örlítið með árunum og mælist nú yfir 47°C. Vatn úr þessari holu var notað í baðkör um nokkura ára skeið en í dag er vatnið notað sem skolvatn í boruninni sem stendur yfir.
Eftir fjármálakreppuna 2008 hægðist mikið á framvindu jarðhitaleitarinnar en einhverjar holur voru dýpkaðar og dæluprófaðar. Nú eftir sameiningu Múlaþings tóku HEF veitur við umsjón þessa verkefnis og markmiðið er að bora í gegnum þessa sömu æð og DPV-28 gerir, nema á mun meira dýpi eða í kringum 600 m. Efnahiti hola á svæðinu mælist 75°C og því má reikna með að finna megi 70-80°C heitt vatn á þessu jarðhitasvæði.
Ómar Bjarki og jarðfræðistofa hans Stapi hafa verið viðriðin við þetta verk frá upphafi. Við færum Ómari Bjarka kærar þakkir fyrir þjónustuna.
19.2.2024
Brösulega gengur að bora í dag vegna vatnsæðar og aðeina tókst að bora 7 metra. Það eru allar líkur á því að steypa þurfi þessa sprungu af sem fannst í gær og áfram í dag því vatnið úr henni bæði torveldar borun og kemur til með að kæla það heita vatn sem við ásælumst. Vegna þessa vatnsmagns og steypingar má vænta hægagangs í borframvindu næstu daga.
18.2.2024
Áfram borað frekar hægt í dag eða úr 288 í 317 metra. Halli eykst áfram lítillega í holunni og er kominn æi 9,9° í 310 m. Undir lok dags var borað í volga vatnsæð mer nokkru vatni. Það er hálfkalt eða um 34°C enda ekki að vænta meiri hita fyrr en á meira dýpi.
17.2.2024
Hitinn kominn í 31 gráðu en að mestu tíðindalítill dagur að baki. Borað var hægt til að reyna að stýra bornum betur en halli holunnar jókst í 9,4°. Borinn var kominn í 288 metra dýpi í lok dags.
16.2.2024
Dagurinn hófst á hitamælingu eins og venjan mun vera. Hiti nærri botni eða í 200 metrum mældist 28°C. Við reiknum ekki með verulegri hitaaukningu fyrr en komið er framhjá holu DPV-30 sem mun gerast á 250-300 metra dýpi. Boraðir voru 42 metrar, frá 216 í 258 m. þá var allt tekið upp og skipt um krónu og lofthamar stilltur. Hallamæling var gerð samhliða hitamælingu og aftur eftir borun og var hallinn kominn í 9,2° í 250 metrum. Eftir mat á hitamælingu var ákveðið að reyna að minnka hallann í framhaldinu.
15.2.2024
Dagurinn hófst á því að hitamæla holuna. Þetta er iðulega gert að morgni dags en þá hefur holan fengið að jafna sig yfir nóttina. í 126 metrum var hitinn 21,7 gráður. Borun heldur áfram með 6,5 tommu lofthamri og var borað úr 138 metrum í 216 metra. Halli holunnar mældist 7,89° í 120 metrum og virðist hallinn halda sér nokkuð vel.
j
Hér sést borinn uppsettur að bora á um 160 metra dýpi.
14.2.2024
Ný borvakt mætti á svæðið og hélt borun áfram. Dagurinn gekk nokkuð vel en bergið er tiltölulega hart. í 80 metra dýpi var komið á litla vatnsæð með um 18°C vatni. Það er ekki óeðlilegt, en fyrir sem bestan árangur vonumst við til að finna ekki mikið vatn fyrr en á töluverðu dýpi sem væri þá mun heitara. Borun hélt áfram og var komin niður í 138 metra í lok dags.
13.2.2024
Dagurinn byrjaði á því að hallamæla holuna og reyndist hallinn vera 7,69° sem er nærri 8 gráðunum sem lagt er upp með. Svo hélt borun áfram með 6,5 tommu lofthamri og vatn úr holu DPV-28 sem myndar heitan læk í gegnum svæðið notað til þess að smyrja og skola svo borun gangi betur. Alls tókst að bora 54 metra og holudýpt komin í 72 metra. Önnur hallamæling var gerð í 54 metrum og reyndist 7,95°. Vaktaskipti eru hjá bormönnum á þriðjudögum og næsta vakt tekur við á miðvikudögum og því eru þetta styttri vinnudagar en aðrir.
12.2.2024
Bormenn Ræktó mættu aftur á laugardaginn, með aðra loftpressu og hófurst strax handa við að koma 14 tommu fóðringunni niður. Fljótlega var komið í gott og fast berg svo það var látið nægja að setja fóðringuna niður í 8 metra. Síðan var steypt ofan í fóðringuna svo ekki leki meðfram henni.
Nú í dag (mánudagur) er verið að miðjusetja holuna áfram í gegnum steypu og fóðringu og gera klárt til þess að bora niður með 6,5 tommu stöngum. Undir lok dags tókst að bora niður á 18 m dýpi.
5.2.2024
Bornum er stillt upp og uppúr klukkan 11 er borinn settur í gang. Hann byrjar á því að koma niður 12 metrum af 14 tommu fóðringu. Það fór ekki betur en svo að eftir 4 metra borun bilaði loftpressan. Unnið er að viðgerð en útlit er fyrir nokkura daga hlé á borun vegna þessa. Frekari uppfærslur bíða þangað til borinn fer aftur í gang.
Hér sést Trölli í borsstöðu. Mastrinu hallar hann í 8 gráður sem er halli borholunnar. Einnig sést 14 tommu fóðringin vel sem sett verður niður fyrstu 12 metrana.
4.2.2024
Bormenn Ræktó koma keyrandi með Trölla og allt sitt hafurtask og koma sér fyrir á borplaninu.